Nemendafélag Háskólans á Bifröst

Lög nemendafélags Háskólans á Bifröst

LÖG NEMENDAFÉLAGS HÁSKÓLANS Á BIFRÖST

I. Kafli – Heiti félagsins, heimili og hlutverk

1. gr.

Félagið heitir Nemendafélag Háskólans á Bifröst (hér eftir vísað til sem NFHB eða félagsins) (e. The Student Association of Bifröst University). Kennitala félagsins er 620981-0529.

2. gr.

Lögheimili félagsins og varnarþing er Bifröst, 311 Borgarbyggð.

3. gr.

Tilgangur NFHB er að standa vörð um hagsmuni nemenda Háskólans á Bifröst og vinna ætíð að bættum hag þeirra í námi við skólann.

II. Kafli – Aðild að félaginu

4. gr. Aðild

Allir nemendur við Háskólann á Bifröst, er hafa greitt skólagjald hverrar annar, njóta sjálfkrafa aðildar að félaginu. Ef félagsmaður vill ekki njóta aðildar að félaginu er honum frjálst að segja sig úr því, með því að senda skriflegt erindi til stjórnar félagsins. Háskólinn á Bifröst heldur utan um félagaskrá félagsins og sér um að uppfæra hana í upphafi hverrar annar.

III. Kafli – Stjórn

5. gr. Stjórn félagsins

Stjórn NFHB skal skipuð sex nemendum úr grunn- eða meistaranámi við Háskólann á Bifröst. Stjórn félagsins skipa forseti, varaforseti sem einnig er ritari, fjármálastjóri, hagsmunafulltrúi, viðburða- og samskiptastjóri og fulltrúi nýnema, kjörinn í upphafi haustannar sbr. 11. gr. laga þessara. Stjórn félagsins ritar firma þess.

6. gr. Forseti

Forseti félagsins, í hans fjarveru varaforseti/ritari, hefur yfirumsjón með starfsemi félagsins og ber endanlega ábyrgð á málefnum þess. Forseti boðar til stjórnarfunda og gegnir stöðu fundarstjóra á þeim fundum. Forseti kemur fram fyrir hönd félagsins. Forseti situr í háskólaráði Háskólans á Bifröst og einnig í stjórn Hollvinasamtaka Bifrastar. Forseti situr í fulltrúaráði Landsambands íslenskra stúdenta. Forseti hefur prókúru.

7. gr. Varaforseti/Ritari

Varaforseti skal vera forseta félagsins innan handar og gegna starfi forseta í forföllum hans. Varaforseti starfar einnig sem ritari stjórnar og sér til þess að lög félagsins séu aðgengileg öllum nemendum með skýrum hætti og uppfærð til samræmis við samþykktar lagabreytingar hverju sinni.

8. gr. Fjármálastjóri

Fjármálastjóri hefur umsjón með fjármálum félagsins og er ábyrgur fyrir bókhaldi þess. Fjármálastjóri hefur prókúru. Fjármálastjóri útbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir lok septembermánaðar. Fjármálastjóri útbýr ársreikning fyrir hvert reikningsár sem skal samþykktur af endurskoðanda eða tveimur skoðunarmönnum og síðan borinn undir stjórn félags til samþykktar. Ársreikningur skal vera aðgengilegur félagsmönnum viku fyrir aðalfund og svo birtur á vefsíðu félagsins eftir það.

9. gr. Hagsmunafulltrúi

Hagsmunafulltrúi skal vinna að hagsmunamálum nemenda og gæðamálum náms við Háskólann á Bifröst og hafa frumkvæði af úrbótum hverju sinni, hvort sem það er í samvinnu við kennslusvið eða einstaka deild innan háskólans. Hagsmunafulltrúi ber þar að auki ábyrgð á endurskoðun laga félagsins eftir því sem þörf krefur. Hagsmunafulltrúi situr í gæðanefnd og fulltrúaráði Landssamtaka íslenskra stúdenta. Hagsmunafulltrúi situr í háskólaráði Háskólans á Bifröst.

10. gr. Viðburða- og samskiptastjóri

Viðburða- og samskiptastjóri hefur umsjón með öllum viðburðum nemendafélagsins í samráði við stjórn félagsins og undirfélaga þess. Hann skal sjá til þess að samningum og samstarfi við styrktar- og samstarfsaðila félagsins sé framfylgt samkvæmt efni þeirra. Þá skal viðburða- og samskiptastjóri halda utan um nemendaskírteini og afslætti sem þau veita. Að öðru leyti vísast til handbókar félagsins um nánari útlistun á starfi viðburða- og samskiptastjóra.

11. gr. Nýnemafulltrúi

Fulltrúi nýnema skal vera nýnemi sjálfur, er kosning fer fram. Kjör hans skal fara fram í byrjun haustmisseris ár hvert. Fulltrúi nýnema skal vera tengiliður stjórnar félagsins við nemendur á fyrsta ári við Háskólann á Bifröst.

12. gr. Skoðunarmenn

Félagið skal hafa tvo skoðunarmenn. Stjórn félagsins skal tilnefna skoðunarmenn í upphafi starfsárs síns til að fara yfir ársreikning félagsins í lok starfsárs stjórnar.

13. gr. Breytingar á stjórn

Ef svo ólíklega vill til að einhver stjórnarmeðlima segi af sér eða forfallist til lengri tíma þannig að hann geti ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum þessum, skal félagið þá þegar auglýsa eftir nýjum stjórnarmanni. Haldinn skal sérstakur fundur félagsins þar sem frambjóðendur kynna sig og skal því næst ganga til kosninga skv. lögum félagsins.

IV. Kafli – Kosningar

14. gr. Kjörgengi og kosningaréttur

Kosningarétt hafa allir félagsmenn NFHB. Kjörgengi hafa allir félagsmenn er hyggja á áframhaldandi nám við skólann. Framboð skulu vera skrifleg og undirrituð eða staðfest af frambjóðanda í gegnum póstbúnað Háskólans á Bifröst. Auglýsa skal eftir framboðum minnst þremur vikum fyrir aðalfund.

15. gr. Frambjóðendur

Ef frambjóðandi er einn í framboði telst sá aðili sjálfkjörinn og þarf ekki að kjósa rafrænt, sbr. 19. gr. laganna, um það embætti. Falli atkvæði jafnt við kjör í embætti stjórnar nemendafélagsins sem og önnur embætti sem kosið er til á aðalfundi, ræður hlutkesti niðurstöðunni.

16. gr. Framboðsfrestur

Framboðsfresti lýkur sjö dögum fyrir aðalfund.

17. gr. Kynning frambjóðenda

Þegar framboðsfresti er lokið, skal frambjóðendum boðið að kynna sig á vefsíðu og samfélagsmiðlum félagsins. Þá skulu frambjóðendur kynntir með tölvupósti sem sendur skal til allra nemenda við skólann. Kjörseðill verður útbúinn svo fljótt sem verða má. Opna skal fyrir kosningar í þau embætti, sem fleiri en eitt framboð hefur borist í.

18. gr. Laus embætti

Ef ekki hafa borist framboð í öll laus embætti, fyrir sannanlega auglýstan aðalfund félagsins, er stjórn félagsins heimilt að skipa í laus embætti úr hópi félagsmanna sem hafa kjörgengi, að því gefnu að embættið hafi áður sannanlega verið auglýst án árangurs.

19. gr. Kjörstjórn

Stjórn félagsins skal skipa þrjá aðila í kjörstjórn. Leitast skal við að gæta jafnræðis milli aðildarfélaga við skipan kjörstjórnar. Kjörstjórn skal sjálf kjósa sér formann. Einfaldur meirihluti ræður við afgreiðslu mála innan kjörstjórnar. Þeir sem sæti eiga í kjörstjórn hafa fyrirgert rétti sínum til framboðs í viðkomandi kosningum. Kjörstjórn skal skipa þremur vikum fyrir kosningar. Kjörstjórn skal skipuleggja kosningar og sjá um framkvæmd þeirra í samvinnu við stjórn félagsins. Kjörstjórn skal gæta hlutleysis og skal sjá til þess að öllum kröfum um öryggi og skilvirkni sé fullnægt og er hún bundin þagnarskyldu um framgang kosninga.

20. gr. Framkvæmd kosninga

Kosningar til embætta í stjórn félagsins, annarra embætta og trúnaðarstarfa á vegum félagsins, eru rafrænar og skulu fara fram með leynilegum hætti. Boða skal til kosninga með þriggja vikna fyrirvara. Kosningar skulu auglýstar með tryggilegum hætti, á vefsíðu félagsins, samfélagsmiðlum þess og með tölvupósti til nemenda, ella teljast kosningarnar ólögmætar. Framboðsfresti lýkur sjö dögum fyrir aðalfund, sbr. 15. gr. laganna. Kosningar skulu hefjast fyrir aðalfund og skal lokið á aðalfundi skv. auglýstri dagskrá.

21. gr. Úrskurðanefnd vegna kosninga

Stjórn félagsins skal skipa þrjá aðila í úrskurðanefnd vegna kosninga. Skal skipan nefndarinnar lokið þremur vikum fyrir kosningar. Þeir sem sæti eiga í nefndinni hafa fyrirgert rétti sínum til framboðs í viðkomandi kosningum. Þeir sem skipaðir eru í úrskurðanefnd geta ekki einnig verið í kjörnefnd. Við val á aðilum í nefndina skal leitast til við að skipa aðila sem koma úr mismunandi deildum og skal vera einn aðili sem ekki er nemandi við Háskólann á Bifröst. Nefndin skal a.m.k. skipuð einum nemanda úr lagadeild. Nefndarmenn skulu gæta hlutleysis og eru bundnir þagnarskyldu um störf nefndarinnar umfram það sem gert hefur verið opinbert. Komi til þess að vafi leiki um hæfi einstakra nefndarmanna skal kærunefnd öll taka ákvörðun um hæfi viðkomandi. Skal nefndin hafa til hliðsjónar hæfisreglur stjórnsýslulaga við þá ákvörðun.

22. gr. Kærur til úrskurðanefndar

Kærur vegna kosninga skulu berast úrskurðanefnd skriflega, eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að kosningum lauk. Nefndin skal kveða upp úrskurð um efni kæru eigi síðar en viku eftir að kærufrestur rann út. Nefndin hefur endanlegt úrskurðarvald um efni kæru en viðkomandi er þó frjálst, eðli málsins samkvæmt, að fara með mál sitt fyrir dómstóla ef hann sættir sig ekki við niðurstöðu nefndarinnar. Komist nefndin að niðurstöðu um að misbrestur hafi verið á framkvæmd kosninga, í heild eða að hluta, skv. ákvæðum laga þessara um framkvæmd kosninga, skal kjörnefnd falið að boða til nýrra kosninga. Skulu framboð sem bárust vegna fyrri kosninga gild í slíkum kosningum. Skal boðað til nýrra kosninga eigi síðar en viku eftir að nefndin skilar úrskurði sínum. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda um framkvæmd aukakosninga og aðalkosninga.

V. Kafli – Starfstími stjórnar, úrsögn og vantraust

23. gr. Starfstími stjórnar

Starfstími stjórnar NFHB og reikningsár skal vera á milli aðalfunda, þó aldrei lengur en til 31. maí á næsta almanaksári eftir að stjórn tekur við. Að skipunartíma loknum skal fráfarandi stjórn vera til staðar fyrir nýkjörna stjórn og leiðbeina henni fyrst um sinn.

24. gr. Úrsögn úr stjórn félagsins

Ef svo ólíklega vill til að stjórnarmaður hyggist segja af sér embætti skal viðkomandi senda skriflega tilkynningu þar um til forseta félagsins. Ef forseti hyggst segja af sér skal hann senda tilkynningu þar um til stjórnar félagsins.

25. gr. Yfirlýsing um vantraust og brottvikning

Stjórn félagsins getur lýst yfir vantrausti á stjórnarmann, sem kosinn hefur verið til að gegna embætti. Stjórnarmaður getur lýst yfir vantrausti á annan meðlim stjórnarinnar. Almennir félagsmenn geta lýst yfir vantrausti á einn eða fleiri meðlimi stjórnar félagsins eða stjórnina í heild sinni. Yfirlýsingar um vantraust skulu berast skriflega til forseta félagsins og skulu þær undirritaðar af 10% félagsmanna hið minnsta. Skal þá forseti boða til fundar allra félagsmanna vegna yfirlýsingarinnar, innan tveggja vikna frá móttöku hennar. Til fundarins skal boðað með að minnsta kosti viku fyrirvara. Ef komið hefur fram yfirlýsing um vantraust gagnvart forseta skal varaforseti boða til fundarins. Komi fram yfirlýsing um vantraust gagnvart stjórninni allri, skal hún fá óháðan aðila til þess að boða til og stýra fundi félagsmanna um meðferð slíkrar yfirlýsingar. Á slíkum fundi skulu þeir sem lýst hafa yfir vantrausti standa fyrir máli sínu og þeim sem slík yfirlýsing beinist að gefinn kostur á andsvari. Fundarmenn skulu greiða atkvæði og sé yfirlýsing um vantraust samþykkt, af 2/3 hluta fundarmanna, tekur hún strax gildi.

VI. Kafli – Stjórnarskipti

26. gr. Verklag við stjórnarskipti

Áður en stjórn félagsins lýkur störfum sínum skal hún yfirfara lög þessi og athuga hvort úrbóta sé þörf. Lagabreytingar fara svo fram skv. lögum þessum. Fráfarandi stjórn skal halda fund með nýkjörinni stjórn innan 10 daga frá aðalfundi. Þar lætur hún nýja stjórn fá gögn er viðkoma félaginu. Fráfarandi stjórn er skylt að kynna störf félagsins ítarlega fyrir nýrri stjórn og undirstrika mikilvægi þess að farið sé eftir lögum félagsins í hvívetna.

VII. Kafli. Slit á félaginu.

27. gr. Tillaga stjórnar um slit félagsins

Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga. Eignir félagsins ganga til Háskólans á Bifröst til varðveislu þegar félaginu er slitið þar til nemendur stofna annað félag í sama tilgangi sem telst arftaki félagsins og fær því eignir þess.

VIII. Kafli. Starfshættir stjórnar

28. gr. Starfsáætlun

Starfsáætlun stjórnar skal liggja fyrir fljótlega í byrjun hvers skólaárs og vera aðgengileg hverjum sem er á skrifstofu félagsins og heimasíðu þess.

29. gr. Fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun skal liggja fyrir fljótlega í byrjun hvers skólaárs.

30. gr. Ábyrgð

Sérhver meðlimur stjórnar félagsins ber ábyrgð á því að kynna sér þau lög þessi, gögn, verklagsreglur, leiðbeiningar og skýrslur um hagsmuni nemenda sem liggja fyrir í upphafi starfsárs og í gegnum starfsárið.

31. gr. Fundarsókn

Stjórnarmeðlimum ber skylda til að mæta á stjórnarfundi félagsins og aðra fundi og viðburði sem félagið boðar til og stendur fyrir, kynna sér gögn og taka virkan þátt í starfsemi félagsins.

IX. Kafli. Stjórnarfundir

32. gr. Fundarboð

Forseti félagsins boðar til stjórnarfunda. Boða skal til stjórnarfunda einu sinni í mánuði, hið minnsta og/eða eftir þörfum. Stjórnarfundir skulu haldnir að minnsta kosti 10 sinnum yfir starfsárið. Forseti skal senda fundarboð, minnst viku fyrir stjórnarfund. Forseti skal boða skriflega til funda með tölvupósti og skulu stjórnarmeðlimir svara með tilkynningu um það hvort þeir mæti á fundinn eður ei. Forfallist stjórnarmeðlimur, skal greina forseta félagsins frá því tímanlega.

33. gr. Að krefjast fundar

Stjórnarmeðlimir geta krafist þess skriflega að stjórnarfundur verði haldinn og skal þá boða til hans innan viku frá því að krafan er fram komin með sannarlegum hætti.

34. gr. Lögmæti

Stjórnarfundur telst lögmætur ef til hans er boðað á lögmætan hátt skv. lögum þessum. Til að stjórnarfundur félagsins teljist lögmætur þarf meirihluti stjórnar félagsins að vera viðstaddur fundinn.

35. gr. Opnir stjórnarfundir

Stjórn félagsins er heimilt að halda stjórnarfundi sem opnir eru öllum meðlimum félagsins, teljist þess þörf.

36. gr. Atkvæðavægi á stjórnarfundum

Á stjórnarfundum ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Ef atkvæði falla jafnt hefur forseti úrslitaatkvæði. Sé um fjárreiður félagsins að ræða, þá ræður atkvæði fjármálastjóra. Eigi atkvæðagreiðsla að fara fram telst fundurinn lögmætur ef meirihluti réttkjörinna stjórnarmeðlima sitja fundinn. Hver stjórnarmeðlimur hefur eitt atkvæði á stjórnarfundi.

37. gr. Áheyrnarsæti á stjórnarfundum

Á stjórnarfundum félagsins eiga áheyrnarsæti með tillögurétti fulltrúar félagsins í Landssamtökum íslenskra Stúdenta og fulltrúar í nefndum og ráðum Háskólans á Bifröst. Formenn undirfélaga nemendafélagsins, Merkúr, Justitia og Verus eiga áheyrnarsæti með tillögurétti. Áheyrnarfulltrúi hefur tjáningar- og málfrelsi á fundum en ekki atkvæðisrétt.

38. gr. Áheyrnarsæti á vegum stjórnarmanns

Stjórnarmeðlimir geta boðað áheyrnarfulltrúa á stjórnarfund þar sem fjallað er um sérstök mál sem talið er mikilvægt að viðkomandi áheyrnarfulltrúi komi að. Sá stjórnarmeðlimur sem tilnefnir viðkomandi áheyrnafulltrúa tilgreinir hvaða mál á fundardagskrá hann óskar eftir því að viðkomandi áheyrnarfulltrúi komi að. Eftir að áheyrnarfulltrúi hefur setið þá fundarliði sem hann var beðinn um að sitja skal hann víkja af fundi. Um áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar félagsins gilda sömu þagnarskylduákvæði laga þessara og eiga við um aðra stjórnarmeðlimi. Áheyrnarfulltrúi hefur tjáningar- og málfrelsi á fundum en ekki atkvæðisrétt.

39. gr. Áheyrnarsæti á vegum félagsmanna

Almennir félagsmenn geta með undirskrift hið minnsta 5% félagsmanna tilnefnt sér áheyrnarfulltrúa til þess að mæta á fundi stjórnar félagsins. Um þann aðila gilda sömu reglur og ef stjórnarmeðlimur tilnefnir áheyrnarfulltrúa. Áheyrnarfulltrúi hefur tjáningar- og málfrelsi á fundum en ekki atkvæðisrétt. Um áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar félagsins gilda sömu þagnarskylduákvæði laga þessara og eiga við um aðra stjórnarmeðlimi.

40. gr. Fundargerð

Á stjórnarfundum skulu ávallt ritaðar fundargerðir. Fundargerðir skulu vera aðgengilegar á vefsíðu félagsins. Fundargerðir skulu birtar eins fljótt og auðið er eftir að fundi lýkur. Stjórnarmeðlimum gefst þá tækifæri til þess að koma með athugasemdir. Þá skal jafnframt óska eftir samþykki fundargerðar rafrænt. Fundargerð skal birta á vefsíðu félagsins þegar samþykki hefur fengist fyrir henni.

41. gr. Samskipti

Stjórn félagsins skal vanda til verka og hafa almennar samskiptavenjur að leiðarljósi. Stjórnarmeðlimir skulu kynna sér siðareglur Háskólans á Bifröst og starfa eftir þeim.

X. Kafli. Fundarsköp

42. gr. Fundarstjórn

Forseti félagsins stýrir stjórnarfundum en getur tilnefnt annan í sinn stað. Í fjarveru forseta stýrir varaforseti stjórnarfundum.

43. gr. Mæting

Stjórnarmeðlimir skulu mæta á fundi en láta forseta tafarlaust vita ef þeir forfallast.

44. gr. Þátttökuréttur

Stjórnarmeðlimir hafa fullan þátttökurétt við afgreiðslu mála félagsins. Stjórnarmeðlimir sinna skyldum sínum af heilindum og til samræmis við stefnu og lög félagsins. Stjórnarmeðlimum ber að hafa eftirfarandi í huga á stjórnarfundum: Að búa sig sem best undir þátttöku á fundinum. Að mæta stundvíslega, áður en fundur hefst formlega. Fundarstjóri sér til þess að fundardagskrá sé fylgt og opnar mælendaskrá þegar við á í hverjum dagskrárlið. Þegar mælendaskrá er opin geta þeir sem hafa málfrelsis- og tillögurétt tekið til máls. Að fylgjast með störfum fundarins og forðast óþarfa ráp og truflun á meðan fundurinn stendur yfir. Að trufla ekki fund með frammíköllum ásamt því að virða fundarstjórn og mælendaskrá. Þátttakendur skulu koma fram af virðingu. Engin mismunun, hvorki óbein eða bein, né nokkurs konar áreitni er liðin á fundum. Að fylgja fundarsköpun félagsins skv. lögum félagsins. Að kynna sér efni þessara reglna og fylgja þeim ávallt.

45. gr. Bókanir og tillögur á fundum

Stjórnarmeðlimir geta skilað inn skriflegri bókun varðandi málefni sem er til umræðu á fundum. Tilgangur slíkrar bókunar er að færa bókunina orðrétt í fundargerð og stjórnarmeðlimur skal skila henni inn til ritara á fundi undir þeim dagskrárlið sem hún er borin upp. Miða skal við að bókunum sé varpað upp fyrir þeim er sitja fundinn. Ekki þarf að kjósa um bókanir. Vilji stjórnarmeðlimir bóka um mál sem eru ekki á dagskrá skal óska eftir því að mál verði sett á dagskrá. Gefist ekki tími í það skal bókunin borin upp undir önnur mál og er þá skylt að varpa henni upp fyrir fundargestum svo umræða um slíkt óundirbúið mál verði skýr. Stjórnarmeðlimir geta komið með tillögur fyrir fundinn á meðan á fundi stendur og eru eindregið hvattir til þess. Ef stjórnarmeðlimur vill taka upp sérstakan dagskrárlið á fundi skal hafa samband við forseta félagsins, sem skipuleggur og heldur utan um fundardagskrá.

XI. Kafli – Aðalfundur

46. gr. Almenn atriði

Aðalfundur fer með æðsta ákvörðunarvald félagsins. Aðalfundur er helsti vettvangur samþykkta á breytingum sem gera á, reikningsskila og kosninga til trúnaðarstarfa. Aðalfundur skal haldinn í lok hvers starfsárs stjórnar félagsins, þó aldrei síðar en 31. maí. Til aðalfundar skal boða hið minnsta tveimur vikum fyrir áætlaðan fundardag ella telst hann ólögmætur. Í aðalfundarboði skal koma fram hvar og hvenær fundurinn er haldinn. Í aðalfundarboði skal birta dagskrá fundar auk upplýsinga um öll þau embætti sem óskað er eftir framboðum í. Aðalfundur telst löglegur ef til hans er boðað samkvæmt lögum félagsins. Einnig skal aðalfundur auglýstur á þeim samfélagsmiðlum sem NFHB heldur úti.

47. gr. Dagskrá aðalfundar

Aðalfundur ályktar um hin ýmsu mál hverju sinni. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi að undanskildum samþykktum breytingum þar sem aukinn meirihluta þarf. Tillögur um breytingar á félaginu eða lögum þess skulu kynntar tveimur sólarhringum fyrir aðalfund, með tölvupósti til nemenda, á heimasíðu félagsins og samfélagsmiðlum þess. Heimilt er að bera upp breytingartillögur á aðalfundi. Til að breyta nafni félagsins þarf a.m.k. 3/4 félagsmanna sem mættir eru á aðalfund að samþykkja breytinguna.

48. gr. Fundarsköp aðalfundar

Forseti félagsins setur fundinn sem og stýrir umræðum. Á aðalfundi skal fylgja fundarsköpum skv. lögum þessum. Til þess að tillaga á aðalfundi hljóti samþykki þarf samþykki meirihluta fundarmanna. Slíkt á þó ekki við um tillögur um breytingar á lögum félagsins, sbr. XVI. kafla laganna.

49. gr. Ritun aðalfundar

Fráfarandi ritari skrifar fundargerð aðalfundar.

50. gr. Tillaga að dagskrá aðalfundar

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1.     Fundur settur.

2.     Forseti fer yfir störf félagsins á starfsárinu.

3.     Fjármálastjóri skilar skýrslu um fjármál starfsársins og ársreikningar bornir upp til samþykktar.

4.     Samþykktar breytingar, sem fram hafa komið tillögur þar að lútandi.

5.     Lagabreytingar.

6.     Skýrsla kjörstjórnar um niðurstöður kosninga.

7.     Önnur mál.

8.     Stjórnarskipti.

9.     Fundi slitið.

XII. Kafli. Félagsfundir

51. gr. Almenn atriði

Stjórn félagsins hefur heimild til að boða til félagsfundar og skal það gert með minnst viku fyrirvara. Stjórn félagsins hefur heimild til að bera upp einstök mál til samþykktar eða synjunar á félagsfundi. Óski 1/10 félagsmanna skriflega eftir félagsfundi skal hann haldinn. Boða skal til fundarins samkvæmt lögum félagsins.

XIII. Kafli.  Þagnarskylda

52. gr. Þagnarskylda og skilyrði til trúnaðarstarfa

Stjórnarmeðlimir sem sinna trúnaðarstörfum í þágu félagsins skulu vera meðlimir þess og stunda nám við Háskólann á Bifröst. Þeir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið eru bundnir trúnaði um viðkvæm mál sem þeir kunna að verða áskynja um við störf sín fyrir félagið.

53. gr. Undirritun trúnaðar- og þagnarskylduyfirlýsingar

Þeir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið skulu undirrita yfirlýsingu um trúnað- og þagnarskyldu.

54. gr. Stjórnarskipti

Við stjórnarskipti skulu nýir stjórnarmeðlimir og fulltrúar nefnda og ráða háskólans skrifa undir yfirlýsingu um trúnað og þagnarskyldu, sbr. 52. gr. laganna.

XIV. Kafli. Samtök, félög, nefndir og ráð

55. gr. Landssamtök íslenskra stúdenta

Félagið skal skipa einn fulltrúa til tveggja ára í fulltrúaráð Landssamtaka íslenskra stúdenta, LÍS. Félagið er hluti af Landssamtökum íslenskra stúdenta, skammstafað LÍS. Stjórn félagsins er skylt að skipa sér aðalfulltrúa og einn varamann fyrir hvern fulltrúa félagsins í fulltrúaráði LÍS. Þá er stjórn félagsins enn fremur skylt að skipa aðila í þau sæti þingfulltrúa sem félagið hefur á landsþingi LÍS. Þeim aðilum er gegna hlutverki fulltrúa fyrir félagið í fulltrúaráði LÍS ber skylda til að upplýsa stjórn félagsins um störf sín fyrir LÍS og almennt um starf LÍS.

56. gr. Hollvinasamtök Háskólans á Bifröst

Félagið er hluti af Hollvinasamtökum Háskólans á Bifröst og situr forseti félagsins í stjórn samtakanna fyrir hönd félagsins.

57. gr. Háskólaráð

Í háskólaráði Háskólans á Bifröst sitja fyrir hönd nemenda að jafnaði hagsmunafulltrúi og forseti félagsins ásamt einum grunnnema, einum meistaranema og einum háskólagáttarnema. Skulu þrjár síðastnefndu stöðurnar auglýstar. Bregða má frá þeirri reglu að hagsmunafulltrúi og forseti sitji í háskólaráði og auglýsa þá fjórar eða fimm stöður.

XV. Kafli. Breytingar og gildistaka.

58. gr. Lagabreytingar

Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða lagabreytingafundi. Til þessara funda skal boðað skv. því sem lög þessi kveða á um. Atkvæði 2/3 hluta fundarmanna þarf til tillaga um lagabreytingu verði samþykkt. Stjórn er skylt að boða til lagabreytingafundar ef félagsmenn óska þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Allir félagsmenn hafa rétt til að koma með tillögur að lagabreytingum. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 3 dögum fyrir boðaðan fund. Tillögur skulu auglýstar á tryggilegan hátt. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst. Heimilt er á aðalfundi eða lagabreytingarfundi að koma með breytingartillögu við löglega framkomna breytingartillögu svo lengi sem tillaga fundarins breytir ekki efni upphaflegu breytingartillögunnar. Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða lagabreytingafundi. Á lagabreytingafundi skal fylgja almennum fundarsköpum.

59. gr. Lagabreytinganefnd

Stjórn félagsins getur skipað lagabreytinganefnd til þess að sjá um endurskoðun á lögum félagsins ef stjórn telur þörf á því. Skal nefndin skipuð þremur aðilum. Störf nefndarinnar skulu hefjast í síðasta lagi tveimur mánuðum fyrir áætlaðan aðalfund. Lagabreytinganefnd starfar í samvinnu við stjórn félagsins og skal skila breytingatillögum til stjórnar félagsins hið minnsta fjórum vikum fyrir aðalfund. Stjórn félagsins tekur svo afstöðu til þess hvaða breytingatillögur verða lagðar fram. Skulu þær breytingatillögur sem stjórn ákveður að leggja fram sendar til félagsmanna um leið og stjórn félagsins hefur tekið afstöðu til þeirra, svo félagsmenn geti kynnt sér efni þeirra.

60. gr. Aðgengi laga

Lög þessi skulu ávallt vera aðgengileg á vefsíðu félagsins og heimasíðu skólans.

61. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla þá eldri lög félagsins úr gildi.

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi nemendafélags Háskólans á Bifröst þann 24. maí 2023.